18 ágúst 2007

Reykjarvíkurmaraþon.

Jæja, þá rann stundin upp í dag. Við erum búin að vera að æfa fyrir reykjarvíkurmaraþonið frá því í lok mars.

Takmark okkar var að hlaupa þessa 10 km undir 55 mínútum. Takmark okkar tókst og hlupum við á 53:37.

Það var erfitt að komast af stað , þar sem að við vorum fyrir miðju og fullt af fólki fyrir framan okkur.

Það tók okkur um 2 mín að komast af stað og fóru fyrstu 2 - 3 km að ná almennilegum hraða sem við vildum hlaupa á.

Þetta var bara eins og hvert annað 10 km hlaup sem við höfum verið að hlaupa í sumar. Reyndar vorum við svolítið stressuð þegar að var verið að telja niður í hlaupið en það hvarf fljótlega og hlupum við bara fyrir okkur og tókst það bara bærilega.

20 júní 2007

Ég fara í vinnuna og í leikfimi

Við vorum upp í rúmi að fara að sofa og var ég að lesa fyrir KÓS. Þá segir hann allt í einu. Pabbi þú ferð í grænatún á morgun. Ég ætla að fara að vinna og svo ætla ég að fara í leikfimi og svo þegar að ég kem heim og ætla að leita að þér undir sænginni þá ert þú bara týndur. Þá ert þú bara enn í grænatúni. Þar komst upp um pabbann hvað hann gerir á daginn meðan að hann er í leikskólanum.

19 júní 2007

Nýja græjan prófuð

Við fórum út að hlaupa í dag og prófuðum nýju græjuna sem að systir var að fá sér. Hún sýndi hraða og hjartslátt og einnig leiðina sem að við hlupum.

Hlaup dagsins: Breiðholt kópavogur 6,01 km á 45 mín.

17 júní 2007

17. júní

Í tilefni þjóðhátíðardagsins þá fórum við niður í bæ og kíktum á fornbílana. Þetta var um 15:00 og kíktum við aðeins á arnarhól, en þar var skemmtun í gangi. Listamaðurnn sem að var á sviðinu var einhver stelpa að syngja lög fyrir yngstu kynslóðina, sem að ég veit ekki hver var. Krstófer Óli virtust ekkert serstaklega spenntur þannig að við ákváðum að stoppa stutt við og fórum því í kaffi til Þuríðar frænku í garðabæinn.

Kristófer Óli var aðallega spenntur fyrir því að fá að fara í gamla jeppann með afa sínum. Hann var voðalega stolltur yfir því að fá að sitja við hliðiná afa sínum, og sérstaklega að fá að sitja í báðar leiðir. Hann var víst búinn að bíða eftir þessu frá því á laugardeginum. Hann passaði því vel upp á það að afi sinn færi ekki á undan sér.

Dúkkubúðin er lokuð en ekki dótabúðin

Magga systir var að stríða Kristófer Óla á því að mamma hans ætlaði bara að kaupa brúna dúkku með brúnt hár og brún augu og engan bíl. "Nei" sagði Kristófer Óli, "hún ætlar að kaupa brúnan bíl"svona þrættu þau fram og til baka í smá stund. Á leiðinni heim þá heyrðist úr aftursætinu, " Dúkkubúðin er lokuð en ekki dótabúðin, mamma ætlar að kaupa brúnan bíl handa mér".

13 júní 2007

Skraf og ráðagerðir

Við hlupum árbæjarleiðina okkar öfugt og var það frekar skrítið að hlaupa leiðina sem að maður er vanur að hlaupa rétt, að hlaupa hana öfugt ef hægt er að tala um að hlaupa eitthvað rétt.

Systir var voða spennt yfir því að fá nýja úrið sitt sem er garmin forerunner 305, og er mjög gott fyrir þá sem að hlaupa og hjóla mikið. Læt linkinn fyrir úrið fylgja með svo að fólk átti sig á því hvers konar undratæki er hér á ferð.

Hlaup dagsins : 8,5 km á 50 mín.

11 júní 2007

Sunnudagsferð til Flekkuvíkur

Fjölskyldan ákvað að nota góða veðrið í dag og fórum við í smá bíltúr og skoðuðum við golfvöllinn við vatnleysuströnd og kíktum aðeins í vogana.

Fórum svo og skoðuðum eyðibýli við flekkuvík. Byrjuðum að ganga í mosanum og hrauninu og var það frekar erfitt þar sem að ég var með einkasoninn á bakinu í göngubakpoka. Þetta reyndi frekar mikið á fæturna þá aðallega mjaðmirnar, en ég fekk verki þar þegar að ég gekk.


Soðuðum eyðibýlið og ströndina og fengum okkur að borða við ströndina áður en við lögðum af stað til baka.

Einkasyninum lá svo mikið á hjarta að hann talaði á fullu alla leiðina fram og til baka.

Fórum svo heim eftir um tvo tíma eftir vel heppnaðan dag.

10 júní 2007

Árbær lengri leið

Hlupum upp í árbæ og þegar við komum svo til baka ákváðum við að lengja hringinn aðeins þannig að úr varð 9,5 km hringur.

Hlaup dagsins : Árbær 9,5 km á 54 mín.

07 júní 2007

Breiðholtshlaupaleið

Fórum út að hlaupa í dag og prófuðum að fara nýja leið. hlupum við eins og við ætluðum upp í árbæ en í staðinn fórum við meðfram stekkjarbakka og þaðan upp í breiðholt. Hlupum hjá bökkunum og svo þaðan niður aIR svæðinu og þaðan inn í kópavog. Tókum svo tröppur í restina.

Hlaup dagsins 5 km á 45 mín

06 júní 2007

Gámar ogt ræktin

Mætti í ræktina kl:06:00 og tók æfingar fyrir efri hlutann. Mætti svo í vinnuna kl:09:00 og fengum við 3 gáma í dag, einn 40 feta og tvo 20 feta. Harðsperrur eftir æfingar morgunsins ágerðust er líða tók á daginn og fann maður að þetta hafði tekið á síðar um kvoldið.

05 júní 2007

Þriðjudagshlaup

Mætti í ræktina kl:06:00 og prófaði að fara upp í salarlaug. Það var ágætis aðstaða þar en stöðin er ekki stór. Tók lappaæfingar þrátt fyrir að við værum að fara út að hlaupa um kvöldið.

Fórum svo út að hlaupa ég og systir og fórum við nýja leið að hluta til og tókum svo spretti upp tröppurnar hjá HK heimilinu. Þetta hefur greinilega spurst út að það væri sniðugt að taka spretti þar því að fleiri voru að taka æfingar þar.

Hlaup dagsins: 5km. á 46,45

04 júní 2007

Landsleikur Íslands gegn Liechtenstein

Horfði á landsleik Íslendinga og Liechtenstein og varð fyrir vonbrigðum. Hitað var upp fyrir leik með því að sína brot úr gömlum leikjum sem að við spiluðum við þá. Þar þar var gefið óbeint í skyn að hér væri við auðveldan mótherja að ræða. En annað kom á daginn. Einu mennirnir sem að gátu eitthvað að mínu mati voru þeir sem að kominn á sem varamenn í seinni hálfleik Theodór Elmar Bjarnason og Birkir Már Sævarsson. Svo sýndi Eiður Smári þvílíkan dómgreindarskort með því að skjóta í markið þegar búið var að dæma hann rangstæðan og búið var að flauta. Halda mætti að þessi maður væri ekki að spila með stórum klúbbi erlendis og er sé með margar milljónir á mánuði í laun. Þannig að það verður gaman að sjá hvernig næsti leikur fer þegar að stórstjarna íslands verður ekki með.

03 júní 2007

Hlaup hlaup og aftur hlaup

Fórum í sund í gær, fimmtudag eins og vanalega. Það gekk bara vel hjá okkur í sundi. Þegar þau áttu að liggja á bakinu og aka á þá fór sonurinn allt í einu að syngja um Mikka ref og hló svo hátt og snjallt milli erinda. Þetta vakti mikla kátínu nærstaddra sem að í honum heyrðu.

Eftir sundi var svo farið út að hlaupa með systur. Tókum smá hring upp í breiðholt og heim aftur. Þetta tók um 40 mín. Teknar voru svo tröppur í restina.

Gamla hlaupaleiðin og sund

Ég og systir fórum út að hlaupa í gær eins og venjulega á sunnudögum. Hlupum við gömlu hlaupaleiðina mína sem að ég hljóp fyrir 20 árum. Þetta er 10 km leið vestur í kópavog og til baka og vorum við 1 klst að hlaupa hana.

Svo eftir hádegið þá fórum við fjölskyldan í sund. Ætlunin var að fara í grafarvogslaugina en hún var lokuð vegna hreingerningar. Við fórum því í árbæjarlaug og var það nokkuð gott að vera þar. Eftir sundið fórum við svo og fengum okkur pizzu hjá Pizza Rizzo. Að lokum fórum við svo í bónus.

31 maí 2007

Fimmtudagshlaup

Fórum út að hlaupa eins og þetta blogg er greinilega farið að ganga út á. Reyndar er þetta greinilega eina sem að maður man þegar maður skrifar ekki reglulega. Hlupum í fossvoginum og hlupum lengri hringinn eða um 5 km.

Hlaup dagsins: 5 km á 28 mín.

29 maí 2007

Þriðjudagshlaup

Fórum út að hlaupa á þriðjudaginn eins og vant er. Hlupum í suðurhlíðum kópavogs og upp tröppurnar hjá HK heimilinu. Það er greinilega vinsælt að hlaupa upp tröppurnar þar því að þegar við komum þangað var annar hópur að hlaupa þar upp.

Hlaup dagsins: 5 km á 28 mín.

28 maí 2007

Líkamsrækt

Fór í sporthúsið á mánudaginn þrátt fyrir að það væri frídagur. Það opnaði kl:9:00 og var ég kominn þar um 9:30. Er með vikupassa og reikna með því að kaupa mér sumarkort þar.

27 maí 2007

Langur hlaupadagur

Ég og systir ákváðum að hafa sunnudaga langa hlaupadaga. Þannig að á sunnudaginn fyrir um viku síðan þá hlupum við frá kjarrhólmanum og alla leið til hafnarfjarðar. Þessi leið reiknast okkur vera um 12,5 km og tók það okkur um 1 klst og 17 mín. Það kom mér áóvart hversu langt maður getur hlaupið eftir aðeins 2 mánaða æfingar.

Hlaup dagsins: 12,5 km 1:17:00 í hafnarfjörð.

25 maí 2007

Vinnan göfgar manninn

Það var nóg að gera í vinnunni í dag. Við vorum að fá einn 40 feta gám sem að við fórum í að merkja upp og reyna að kom vörunum fyrir. Það gengur frekar erfiðlega þar sem að nýja lagerplássið er ekki alveg tilbúið. það er eftir að setja fleiri rekka þar og eins vantar okkur lyftara. Það er reyndar verið að athuga þau mál með lyftarann.

Hlaup dagsins: 39 mín á 5km.

24 maí 2007

Tröppuhlaup

Fórum út að hlaupa þriðjudaginn og var tekinn hringur úr kópavoginum og svo upp í seljahverfi og svo inn í kópavog og hlupum við í suðurhlíðum kópavogs og upp tröppurnar hjá HK heimilinu. Teknar voru bútar og hlupum við fyrst hverja tröppu þrjá búta og svo niður aftur og svo aðra hverja upp aftur. Síðan var tekin næsti bútur og hann hlaupinn eins og svo var tekinn næsti bútur og hlaupinn hver trappa. Svo að lokum þá hlupum við heim. Þetta tók um 30 mín.

Hlaup dagsins: 30 mín. 5km

20 maí 2007

Amma Ólöf er vinkona mín.

Vorum að fara í heimsókn til mömmu og pabba í gær. KÓS segir þá rétt áður en hann sest inn í bílinn "Amma Ólöf er vinkona mín". Ég spyr hann þá "En hvað með afa Óla". "Hann er stundum reiður" svaraði KÓS. "Er hann ekki vinur þinn" spurði ég. "Nei hann er stundum reiður". Það er vegna þess að hann var í pössun hjá þeim um daginn og var afi hanseitthvað að siða hann til vegna þess að hann var eitthvað vondur við ömmu sína.

17 maí 2007

Hlaup upp í árbæ

Fórum að hlaupa í dag eins og planið gerði ráð fyrir og stækkuðum hringinn okkar. Reyndar var það elliðaárdalshringurinn og fórum við áfram upp í árbæ. Mamma og pabbi komu og pössuðu KÓS á meðan að ég og systir fórum. Hann kom með þá sögu að frænka hans væri að koma á mótorhjólinu sínu og væri það rautt.(hún á ekkert mótorhjól). og væri hún með rauðan hjálm. Einnig ætti hann líka mótorhjól niður í geymslu og væri það líka rautt eins og hennar og væri þau bæði þar. Hann ætti svo brúnan hjálm.

Hlaup dagsins. 8,5 km á 52 mín

16 maí 2007

Hjólatúr og hlaup

Hjólaði í vinnuna í dag eins og aðra daga. Tekur reyndar ekki nema 10 mínútur. Við fórum svo út að hlaupa ég og systir og stækkuðum við hringinn og tók hann um 30 mín. Við ætlum svo að auka aðeins við okkur og stækka hringina sem að við hlaupum.

Hlaup dagsins: Fossvogurinn víkingsheimilið 30 mín.

13 maí 2007

Hlaup og Ikea ferð.

Fór ut að hlaupa með systur og fórum við elliðaárdalsleiðina okkar sem er um 6 km. Við bættum að sjálfsögðu tímann okkar frá því að við fórum þessa leið síðast. Þetta var ekki neitt rosaleg bæting eða um 5 sek en bæting engu að síður.

Við fjölskyldan fórum svó í smá Ikea ferð til að kaupa tjald en það var reyndar búið. ætluðaum svo að fara eitthvað meira en litli karlinn han KÓS var eitthvað slappur þannig að við fórum í heimsókn til ömmu og afa. Við fórum svo heim og mældum hann og reyndist hann vera með 38,7 stiga hita.

Hlaup dagsins: 37:40 elliðaárdalurinn.

Hlaup

Hlaup dagsins: 32:00 Breiðholtsleið.

10 maí 2007

Hlaup

Hlaup dagsins: 29:00 var að spá í að ganga upp 3 tröppubúta en fékk ovæntan stuðning af möggu systur þannig að ég hljóp upp þær.

08 maí 2007

Hlaup

Hlaup dagsins: 32:00 Breiðholtsleið.

06 maí 2007

Hlaup

Hlaup dagsins: 23:05

03 maí 2007

Hlaup

Hlaup dagsins: 37:53 elliðdaárdalurinn

01 maí 2007

Hlaup

Hlaup dagsins: 31:30 digraneskirkjuleið.

29 apríl 2007

Hlaup

Hlaup dagsins: 24:30

27 apríl 2007

Hlaup

Hlaup dagsins: Elliðaárdalurinn 41:20

25 apríl 2007

Hlaup

Hlaup dagsins : 27:45

Hlaup

Hlaup dagsins : 27:45

22 apríl 2007

Hlaup

Hlaup Dagsins: 30 mín

21 apríl 2007

Brotni sparibaukurinn.

Kristófer Óla tókst loksins að brjóta bláa sparigrísinn sinn í dag. Var hann upp á leðurkollinum okkar sem að er fyrir framan sjónvarpið, og var Kristófer að príla upp á hann og rak sig í grísinn sem að var þar og datt hann í gólfið og brotnaði. Hann fór reyndar ekki í þúsund mola, heldur bara fjóra og þar sem að grísinn var nánast fullur, þá fóru peningarnir út um allt gólf.

Hann fór ekkert að gráta yfir þessum hörmungum heldur var hann að leika sér að því að dreifa peningunum út um allt gólf. Reyndi ég að plata hann með því að hjálpa mér að taka þá upp. Og ef að hann yrði duglegur þá fengi hann smá súkkli (súkkulaði) í verðlaun. Hann byrjaði að hjálpa mér smá en fann sér svo alltaf eitthvað annað að gera og þurfti ég að reyna að plata hann stöðugt með súkklinu. Svo kom hann með það svar að hann væri að fara að vinna og ætlaði að fara á renaultinum og fór í skóna mína og ég ætti að vera heima og taka upp peningana.

Stuttu seinna var hann svo kominn heim úr vinnunni á renaultinum og byrjaði að hjálpa mér aftur. En svo þurfti hann að fara í vinnuna aftur og að lokum var ég búinn að taka alla peningana upp með glopóttri hjáp sonarins. Þess skal reyndar getið að hann plataði pabba sinn til að fá smá súkkli.

17 apríl 2007

Flutningar.

Dagurinn í dag fór að öllu leyti að flytja gamla lagerinn frá Skúlagötu og niður í Faxafen og var maður Svolítið þreyttur eftir daginn. Maður lét það seamt ekki stoppa sig á því að hjóla heim og fara svo út að skokka með systur um 20:00

Hlaup dagsins: 4,5 km og var takmarkið að bæta tímann og það tókst og hlupum við hringinn á 23:31.

12 apríl 2007

Vinna, skóli og hlaup

Mætti í vinnuna í dag eins og aðra daga. Fór svo um tvö leytið niður í epal að hjálpa þeim að tæma 4 gáma og reikna ég méð því að vera þar næstu daga ef ekki vikur.

Hlaup dagsins: Fór að hlaupa með systur og fórum við hringinn okkar og tók hann aðeins lengri tíma vegna leiðilegs mótvinds eða um 27 mín.

11 apríl 2007

Leifsstöð

Fór á vegum vinnunnar út í Leifsstöð. Við lögðum af stað um 08:00 og vorum komnir um 08:30. Þá þurftum við að vara til öryggisvarðanna og fá dagspassa. Svo þurftum við að fara í gegnum vopnaleitina. Tókum svo lyftuna niður þar sem að farangur vélanna er sendur út í vélarnar. Þar fyrir utan stóð þessi 40 feta gámur sem að við vorum að tæma og var hann með 84 stólum sem að áttu að fara í nýju bygginguna. Við máttum ekki fara út nema að vera í vestum og svo þurftum við að passa allt lauslegt rusl þannig að það myndi ekki fjúkja frá okkur, því það gæti lent í hreyflum flugvélanna.

Reyndar var þetta eins og í fornöld þessi vinnubrögð vegna þess að við þurftum að draga vagnana með handafli á eftir okkur. Þetta eru vagnar eins og þeir nota undir ferðatöskurnar. Síðan þurftum við að draga hann inn, upp í lyftuna og svo inn á gólf og setja síðan kassana inn á gólfið á annarri hæð eftir því hvar þeir ættu að vera. Við gátum bara tekið 9 stóla í hverri ferð þannig að þetta urðu um 10 ferðir.

Svo eftir matinn þá fór ég að laga plaststóla sem að voru hjá kaffitári en allar seturnar voru lausar.

Lögðum svo af stað í bæinn um 14:30 og vorum komnir um 15:00

10 apríl 2007

Byko, Esso og bakaríið.

Ég og einkasonurinn fórum í Byko til að kaupa batterí í úrið mitt. Fékk hann að fara á hjólinu sínu vegna þess að bíllinn hans með gula þakinu var þreyttur eftir mikinn akstur gærdagsins.

Batteríin voru ekki til í Byko þannig að við fórum á Esso bensínstöðina til að athuga hvort þau væru til þar. Það þurfti reyndar að beita eikasyninum smá fortölum og plati til að fá hann út úr Byko vegna þess að kerrubíllinn sem að var við inn/útganginn vakti mikla athygli hjá honum og vildi hann endilega fá að keyra hann. Við fórum svo eins og áður var sagt á Esso bensínstöðina og voru þau til þar. Hann sat á hjólinu sínu og fekk hann að skoða nokkra bíla sem að voru til þar.

Við fórum svo upp í bakarí að kaupa brauð, snúð og kringlur. Hann sagði á leiðinni að hann ætlaði að fara með súkkulaðisnúð til mömmu en hún yrði að borða fyrst brauð, síðan snúð. Þá sagði ég við hann að hann yrði líka borða fyrst brauð, síðan snúð. "Nei sagði hann fyrst snúð, síðan brauð" og rifumst við um það nánast alla leiðina heim en hann samþykkti það svo að lokum að hann ætlaði að borða fyrst brauð, síðan snúð.

Hlaup dagsins: Fór svo með Möggu systur út að hlaupa um 17:30 og hlupum við 4,5 km hringinn okkar og bættum tímann úr 27:30 Í 24:45. Þannig að maður er farinn að komast í aðeins betra form.

29 mars 2007

Hlaup

Fór út að hlaupa eftir vinnu eða um 18:45. Fór nýja göngustíginn og hljóp fram hjá víkingsvellinum og niður í fossvog. Hélt áfram og fór aðeins lengra en á móts við snæland, fór svo til vinstri og yfir brú og fór svo kópavogsmegin til baka fram hjá snælandi og svo göngustíginn heim. Þessi ferð tók um 27 mín og var maður þreyttur þegar að þessu var lokið.

Reyndar ekki eins þreyttur og orkulaus eins og maður var á þriðjudaginn þegar að ég fór með systur að hlaupa. Reyndar var sú leið erfiðari meira um brekkur enda hlupum við í suðurhlíðum kópavogs.

12 mars 2007

Ekki fá nýja bleyju.

Ég fór og sótti einkasoninn í leikskólann í dag. Það fyrsta sem að hann sagði við mig þegar að ég kom var "Pabbi ég ekki fá nýja bleyju ég ekki búinn að kúka". Við lentum nefnilega í því í síðustu viku þegar að ég sótti hann að hann var búinn að kúka og það var ekki búið að skipta á honum þegar að ég kom þannig að ég varð að fara með hann inn á klósett í leikskólanum og skipta á honum áður en við fórum að sækja mömmu hans.

09 mars 2007

Þreyttur.

Fórum til mömmu og pabba í heimsókn og varð erfðaprinsinn eftir þegar að ég fór að skutla konunni minni til vinkonu sinnar. Þegar að ég kom til baka var litli karlinn orðinn svolítið þreyttur og vælinn og fórum við flótlega heim til okkar enda klukkan langt gengin í tíu. Hann sofnaði svo fljótlega eftir að við vorum komnir heim enda lang komið framk yfir háttatíma hans.

Sagan endalausa.

Sonurinn sagði mér sögu af mömmu sinni fyrr í vetur og var hún þannig að hún kom og sótti hann í leikskólann og þegar að þau fóru í bílinn og lögðu af stað þá var smá snjór á götunum og smá hálka og hún spólaði af stað þá sagði hann "Mamma spóla á renaultinum". Hann er alltaf að bæta smá við þessa sögu. Hún var orðin þannig að "Mamma spóla mikið á renaultinum" . Og nýjasta útgáfan er að "Mamma spóla mikið á renaultinum og vatnið fóir út um allt". Greinilega efni í góðan rithöfund hér á ferð.

24 febrúar 2007

Slysó




Ég þurfti að fara á slysó að láta athuga með augað í mér. Ég og einkasonurinn vorum að slást í gærmorgunn og hann potaði í augað á mér. Ég var að drepast allan gærdaginn og aðfaranótt laugadagsins líka þannig að í morgunn um 9 ákvað ég að fara upp á slysó. Þar var eitt par á undan mér þegar að ég kom og svo komu um fjórir á eftir mér. Það var hleypt inn eftir hversu milið fólk er slasað og fór ég inn síðastur greinilega ekki nógu mikið slasaður eins og hinir eða ekki nógu frægur. Jón Gnarr var einn af þessum fjórum. Það kom út úr skoðuninni að það var ekkert að auganu, kannski smá rispa á hornhimnunni. Setti deyfilyf í augað og litarefni til að skoða það og fékk ég svo krem til að setja í augað. Þegar að ég kom svo heim þá var sonurinn allveg með það á hreinu hvað læknirinn hafði sagt við mig. "Þú illt í auganu þú fara heim og setja krem í augað". Greinilega með allt á hreinu. Hefði kannski bara átt að tala við hann og sleppt því að fara upp á slysó.

22 febrúar 2007

Pizza, ís og hlaupbangsar.

Ég spurði einkasoninn í dag þegar að kom heim hvað hann ætlaði að fá sér á nammidaginn. Sá stutti var ekki seinn á svari "Pizzu, ís og hlaupbangsa"

17 febrúar 2007

Eggið að kenna hænunni??

Fórum í sund á fimmtudaginn, sem er kannski ekki í frásögu færandi, en. Ég tók einkasoninn með mér í klefann og þegar við vorum búnir í sundi fórum við í sturtu. Í sturtunni var bali sem að hann var voða spenntur fyrir að láta renna í og fara svo í hann. Hann var reyndar búinn að láta renna í hann og fara í hann áður en við fórum ofan í. Jæja höldum áfram með frásögnina. Hann vildi láta renna aftur í hann og klæddi ég hann svo úr sundskýlunni og vildi hann þá fara að pissa í klósettið. Við fórum á klósettið og þegar að við komum til baka þá var eldri stelpa en hann búin að taka balann og ætlaði að láta renna í hann. Þá tók minn sig til og hljóp til stelpunnar og sagði við hana "Ég var með balann ég á hann" og reif balann af henni og hljóp svo með hann til min þar sem að við höfðum verið í sturtu og lét renna í hann og settist svo í hann að lokum. Ákveðinn ungur maður á ferð, ó já ekki hægt að segja annað. Lætur sko ekki vaða yfir sig enda sporðdreki.

16 febrúar 2007

Húsgögn





Það er alltaf nóg að gera í vinnunni og skemmtilegast er þegar að maður fær húsgögn sem að eru öðruvísi en maður á að venjast. Eins og stóll sem að við erum með og heitir F598 og er eftir franskan hönnuð sem að heitir Pierre Paulin og er hann hannaður 1973. Vorum einnig með annann um daginn sem að heitir ekstrem.

Skoppa og Skrítla

Fórum og sóttum mömmu í vinnuna ég og KÓS. Á leiðinni heim sagðist ég ætla að stoppa og hringja í afa . Þá sagði KÓS " Skoppa og Skrítla. " Nei" sagði ég "stoppa og hringja". "Nei, Skoppa og Skrítla" sagði KÓS