Kristófer Óla tókst loksins að brjóta bláa sparigrísinn sinn í dag. Var hann upp á leðurkollinum okkar sem að er fyrir framan sjónvarpið, og var Kristófer að príla upp á hann og rak sig í grísinn sem að var þar og datt hann í gólfið og brotnaði. Hann fór reyndar ekki í þúsund mola, heldur bara fjóra og þar sem að grísinn var nánast fullur, þá fóru peningarnir út um allt gólf.
Hann fór ekkert að gráta yfir þessum hörmungum heldur var hann að leika sér að því að dreifa peningunum út um allt gólf. Reyndi ég að plata hann með því að hjálpa mér að taka þá upp. Og ef að hann yrði duglegur þá fengi hann smá súkkli (súkkulaði) í verðlaun. Hann byrjaði að hjálpa mér smá en fann sér svo alltaf eitthvað annað að gera og þurfti ég að reyna að plata hann stöðugt með súkklinu. Svo kom hann með það svar að hann væri að fara að vinna og ætlaði að fara á renaultinum og fór í skóna mína og ég ætti að vera heima og taka upp peningana.
Stuttu seinna var hann svo kominn heim úr vinnunni á renaultinum og byrjaði að hjálpa mér aftur. En svo þurfti hann að fara í vinnuna aftur og að lokum var ég búinn að taka alla peningana upp með glopóttri hjáp sonarins. Þess skal reyndar getið að hann plataði pabba sinn til að fá smá súkkli.
21 apríl 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli